Hæ og velkomin á síðuna mína! Takk fyrir að kíkja og kynna ykkur það sem ég hef verið að vinna að!
En hver er ég? hvaðan kom þessi hugmynd? hvað næst?
Ég heiti Halla Helga og er 31 árs, gift tveggja barna móðir. Margir segja að maður kynni sig alltaf með starfsheiti og ég er oft sek um það en ég er KENNARI og er mjög stolt af því - enda besta, skemmtilegasta og mest gefandi vinna sem til er (eða það held ég allavega).
Þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla ætlaði ég aldeilis að mennta mig í einhverju sem gæfi mér fullt af peningum (hugsa ekki flestir þannig?). Ég byrjaði að vinna á leikskóla til þess að safna fyrir skólagjöldunum (mig langaði í HR). Á leikskólanum var ég síðan með æðislegan leikskólastjóra sem tók mig á tal og spurði hvort ég væri nú alveg viss um það hvert ég stefndi og hvort ég vildi ekki íhuga það að mennta mig í einhverju sem viðkemur börnum. Áður en fundinum var lokið var ég ákveðin að mennta mig í einhverju sem tengist börnum því ég fann það innra með mér að þar lá og liggur ástríða mín! Uppeldi, kennsla, börn og almenn skemmtilegheit.
Ég byrjaði þá í náminu og er útskrifuð með B.Ed í grunnskólakennslu og M.Ed í faggreinakennslu. Ég lagði áherslu á stærðfræði og upplýsingatækni í náminu mínu, ásamt því að taka fjölda áfanga tengda lestri, læsiskennslu og mörgu öðru áhugaverðu. Um leið og ég byrjaði í náminu fór strax að blunda sú hugsun í mér að búa til heimasíðu! Heimasíðu með einhverjum fróðleik, verkefnum, einkakennslu eða einhverju.. Ég vissi bara að mig langaði að búa til heimasíðu!
Feimnin í mér stoppaði það.. í heil tíu ár..
EN hér er ég! Þökk sé frábærum vinum & eiginmanni sem peppuðu mig í gang og töldu mér trú um að ég gæti þetta! Við getum nefnilega oft svo miklu meira en við höldum!
Ég byrjaði á Instagram og mæli með því að þið fylgið mér þar! Aðgangurinn heitir skemmtileg.verkefni en þið getið líka klikkað á instagram merkið hérna niðri eða á upphafssíðunni. Núna er síðan komin í loftið og hver veit hvað verður næst? Ég er allavega með fulla bók af hugmyndum og draumum!
Góða skemmtun að vafra á síðunni og skoða það sem ég hef verið að vinna að!
Hlýjar kveðjur
Halla Helga