Hvernig byrjaði þetta?

Hæ öll! Takk fyrir að kíkja á síðuna mína :)

Ég hef alltaf pælt mikið í námsefni, sumt hefur mér þótt skemmtilegt en annað ekki eins og eðlilegt er. Sumt námsefni er betra en annað og síðan heyrir maður allskonar ólíkar kenningar hvað er gott að kenna hvenær, í hvaða röð, hvað telst gott og hvað ekki? Hvað er mikilvægast og svona heldur það áfram :) Skoðanir allra eru ólíkar og það er það sem gerir þetta allt svo skemmtilegt og frábært!

Mér finnst mjög gaman að rétta nemendum mínum verkefni sem gleðja þá. Að nemendurnir séu spenntir að vinna verkefnin, forvitnir hvað þeir eru að gera, þegar þeir læra í gegnum leiki og oft finnst mér líka alveg ágætt þegar þau fatta ekki að þau séu að læra en læra samt heilan helling! En oft finnst mér líka gott að þau viti nákvæmlega hver tilgangurinn með verkefninu er og hvaða hæfni við séum að vinna að. Ætli það sé ekki best að hafa þetta allt í bland :)

Um leið og ég fór að kenna fór ég að fikta við að búa til verkefni og hafði ótrúlega gaman að því! Síðan hef ég verið að búa til allskonar verkefni sem höfða til dóttur minnar sem er fædd 2017. Núna er ég í fæðingarorlofi með eina litla og þessi eldri fór að vilja leysa þrautir, skrifa stafina og reikna! Ég var þá fljót að byrja að búa til skemmtileg verkefni fyrir hana á meðan hún var í leikskólanum og sú yngri blundaði.

Maðurinn minn horfði síðan á verkefnin og sagði ,,vá! krakkarnir sem þú kennir eru svo heppnir.. ég litaði sömu jólamyndirnar í tíu ár í grunnskóla". Mér fannst það fyndið en síðan fór ég að velta því fyrir mér hvort ég ætti kannski að deila þessu með öðrum! Úr því varð instagramið (endilega fylgið mér þar) og síðan þessi heimasíða! Ég ákvað að hafa ekki efnið frítt þar sem heimasíðan kostar, lénið kostar og það kostar allt! En á móti eru verkefnin mjög ódýr - og ég vona að þau greiði fyrir útlagðan kostnað! Það kemur í ljós! Ég er allavega að hafa gaman að þessu og vona að aðrir geri slíkt hið sama! 

Hlýjar kveðjur
Halla Helga

Aftur á bloggið